Arskorgar_flat_01_Date_2019_07_07a.jpg

Um verkefnið

Íbúðirnar í Árskógum eru vel staðsettar skammt frá verslun og þjónustu

Í grennd við Seljahverfi að Árskógum 5 og 7 reisir Búseti tvö fjögurra hæða fjölbýlishús með alls 72 íbúðum. Við hönnun húsanna var lögð áhersla á góða nýtingu á rými um leið og þörfinni fyrir heppilega stærð íbúða var mætt. Í Árskógum 5 og 7 verður að finna stúdíó, tveggja og þriggja herbergja íbúðir. Húsin eru mjög vel staðsett á höfuðborgarsvæðinu, skammt frá stofnbraut, fjölbreyttri þjónustu og almenningssamgöngum.

Húsin

Húsin við Árskóga 5 og 7 eru fjögurra hæða fjölbýlishús. Burðarvirki húsanna er steinsteypt, útveggir eru einangraðir að utanverðu og klæddir með ljósri og ljósbrúnni Cembrit (trefjaléttsteypu) klæðningu, sem býr yfir gæðum til þess að standast íslenskt veðurálag. Húsin samrýmast viðmiðum um algilda hönnun. Lyftur eru í húsunum og hindranalaust aðgengi að svölum og sérafnotareitum. Hluta af íbúðunum fylgja bílastæði í sameiginlegum bílakjallara með möguleika á tengingu fyrir rafmagnsbíla. Sameiginleg yfirborðsstæði með tveimur rafhleðslustæðum eru fyrir stúdíó og tveggja herbergja íbúðir. Í kjallara er vagna- og hjólageymsla. Húsin tvö deila einnig samkomusal fyrir viðburði og rými fyrir hjólaviðgerðir. Búseti leggur áherslu á vandaðan frágang lóðar og að húsin falli vel að umhverfi sínu. Lóðarhönnun var í höndum Teiknistofunnar Storðar sem hefur hannað skjólgóðan og vistlegan garð við húsin. Við helstu gönguleiðir umhverfis húsin er snjóbræðsla sem nýtir affall úr ofnakerfum íbúðanna. Búseti leggur áherslu á vandað og stílhreint efnisval með tilliti til umhverfis- og hagkvæmnisjónarmiða er varða rekstur og viðhald. Í húsinu er gert ráð fyrir sjö íbúðum sem mynda búsetuúrræði fyrir fatlaða.

Íbúðirnar

ibudagerdir-arskogar.png

Alls er um að ræða 26 stúdíóíbúðir auk 14 tveggja herbergja íbúða og 32 þriggja herbergja íbúða. Allar íbúðirnar eru með sérinngangi af svalagangi og búnar skemmtilegum svölum en sérafnotareitir fylgja íbúðum á jarðhæð. Við hönnun var kappkostað að nýta hvern fermetra vel og eru íbúðirnar því sérstaklega vel skipulagðar. Innréttingar eru af vandaðri gerð og eru AEG eldhústæki frá Ormsson í íbúðunum. Sturta er í öllum íbúðunum. Flísar eru á veggjum og gólfum baðherbergja en aðrir veggir eru almennt málaðir. Á gólfum er endingargott og áferðarfallegt Quick-step harðparket frá Harðviðarvali. Í íbúðunum er hefðbundið ofnakerfi. Öllum íbúðum fylgir geymsla í kjallara.

Þjónusta og umhverfi

Svæðið er í námunda við íþróttasvæði ÍR en þar stendur yfir metnaðarfull aðstöðuuppbygging. Húsin eru skammt frá Þjónustumiðstöð Breiðholts þar sem er að finna fjölbreytta þjónustu fyrir eldri borgara. Í Seljahverfi er fjölbreytt byggð einbýlis-, rað- og fjölbýlishúsa en svæðið er allt einstaklega vel gróið og barnvænt með þéttu neti göngustíga. Á svæðinu er að finna gróður- og veðursæld. Innan seilingar eru tveir grunnskólar og fjórir leikskólar. Í Mjóddinni er mikilvæg samgöngumiðstöð - þangað ganga átta strætóleiðir og mun Borgarlínan liggja þar í gegn í náinni framtíð. Alla helstu þjónustu er hægt að sækja í Mjóddina, þar er að finna matvöruverslun, lyfjaverslun, heilsugæslu, blómabúð, kvikmyndahús, banka, fiskverslun og svo mætti lengi telja. Ekki má gleyma að minnast á útivistarparadísina sem Elliðaárdalurinn er.

Viðtal við A2F arkitekta

Hönnuðir

Byggingarverktaki: